top of page

SAMVEST samstarfið í frjálsum íþróttum

Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF

 

Sjö héraðssambönd á vesturhluta landsins standa að samstarfi í frjálsum íþróttum undir heitinu SAMVEST. 
Öllum íþróttafélögum - og einstökum iðkendum - innan vébanda þessara sambanda er heimilt að nýta sér vettvanginn til eflingar frjálsíþróttastarfi sínu. 

 

Samböndin eru Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB), Ungmennasamband Dalamanna og N-Breiðfirðinga (UDN), Ungmennafélagið Skipaskagi (USK) Akranesi, Héraðssambandið Hrafnaflóki (HHF) á sunnanverðum Vestfjörðum, Héraðssamband Strandamanna (HSS) og Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK).

 

Samstarfsaðilar skv. viljayfirlýsingunni eru Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ).

 

Frjálsíþróttadeildir sambandanna héldu sameiginlegar æfingar og íþróttamót sumarið 2012, en ákveðið var að stíga skrefið lengra og ganga til formlegs samstarfs. Þann 24. nóvember 2012 var gerður samningur til 3ja ára, út árið 2015. Þann 6. nóvember 2015 sömdu samböndin um áframhaldandi samstarf út árið 2018.

 

Markmið samstarfsins er einfalt: útbreiðsla og efling frjálsíþróttastarfs hjá samböndunum og aðildarfélögum, með samstarfi . Trú samningsaðilanna er að með samstarfinu geti þeir gert meira en hver fyrir sig; boðið betri þjónustu og aukið fjölbreytni í starfinu.

Markmið og skilgreind verkefni

Í samstarfssamningi segir að markmið samstarfsins sé:

„Útbreiðsla og efling frjálsra íþrótta: að auka ástundun íþróttarinnar og gera hana að aðlaðandi og ánægjulegum kosti fyrir börn og ungmenni á samstarfssvæðinu. Samstarf og aukinn áhugi á frjálsíþróttum virki jafnframt sem hvatning til að bæta aðstöðu til iðkunar frjálsíþrótta á félagssvæði samstarfsins.“

 

Helstu verkefni SAMVEST eru þessi:

 

  1. hvetja til þátttöku í frjálsum íþróttum - sérstök áhersla á að auka hlut barna og unglinga í æfingum og keppni, bæði innan svæðis og á landsvísu.

  2. standa að og skipuleggja sameiginlegar frjálsíþróttaæfingar, innan svæðis eða utan, og heimsóknir milli aðila.

  3. standa að og skipuleggja sameiginleg frjálsíþróttamót innan svæðis.

  4. fá utanaðkomandi þjálfara í heimsókn, sömuleiðis umsjónarmenn unglinga- og landsliðsmála, fara í heimsóknir til annarra félaga eða sambanda og efla tengsl þeirra.

  5. hvetja aðstandendur iðkenda til þátttöku í verkefnum SAMVEST.

  6. stuðla að stofnun sameiginlegs keppnisliðs/liða til þátttöku í mótum á landsvísu, t.d. á Meistaramótum Íslands og Bikarkeppnum FRÍ í viðeigandi aldursflokkum. 

  7. vinna að auknu samstarfi sveitarfélaga innan SAMVEST í frjálsíþróttum og komu þeirra að verkefninu eftir atvikum, t.d. með því að leggja til aðstöðu fyrir sameiginlegar æfingar og að styðja við verkefnið fjárhagslega.

  8. leita stuðnings og aðstoðar utanaðkomandi aðila við útbreiðslu, æfingar og keppnir.

  9. vera reiðubúin að hvetja og miðla eigin reynslu af þessu samstarfi til annarra sambanda eða aðila sem vilja hefja slíkt samstarf.

  10. kynna FRÍ og UMFÍ og fyrir hvað þau standa.

 

Aðkoma UMFÍ og FRÍ felst t.d. í að aðstoða við útvegun þjálfara og skipulagningu æfinga og veita annan stuðningi sem fellur innan verksviðs félaganna.

 

 

 

 

 

 

 

 

bottom of page