top of page

Skemmtilegar æfingabúðir og mót!

SamVest stóð fyrir tveggja daga æfingabúðum í frjálsum íþróttum í Borgarnesi dagana 15. – 16. júní 2016. Um er að ræða nýtt verkefni sem SamVest hefur ekki staðið að áður. Hugmyndin vaknaði í vor þegar ljóst var að frjálsíþróttaskóli UMFÍ yrði ekki haldinn í Borgarnesi þetta árið, vegna anna heimamanna við undirbúning Unglingalandsmóts.

Í heildina mættu nærri 30 krakkar en nokkrir þeirra voru hluta úr degi eða komu þegar þeir gátu.

Áhersla var lögð á að fara yfir þessi litlu atriði sem skipta máli þegar maður er að æfa, eins og t.d. að stilla startblokkirnar rétt, hvernig tökum við atrennuna í langstökki, af hverju þurfum við að halla okkur inn í beygjuna í hástökkinu og ýmislegt fleira sem nauðsynlegt er að vita.

Gestaþjálfarar voru Íris Grönfeldt úr Borgarfirði, en hún tók kastþjálfun. Hlynur Guðmundsson yfirþjálfari Aftureldingar Mosfellsbæ kom báða dagana og fór yfir spretthlaup, langstökk og boðhlaup og síðan fengum við Hermann Þór Haraldsson þjálfara hjá FH sem hefur sjálfur æft og keppt í tugþraut, en hann tók hástökkið sérstaklega fyrir.

Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri Borgarbyggðar og ofurhlaupari með meiru kom í heimsókn fyrri daginn og sagði krökkunum frá ýmsu sem tengist hlaupum, markmiðasetningu og hvernig það er að taka þátt í löngum hlaupum. Gunnlaugur fékk ýmsar spurningar frá krökkunum, eins t.d.: Hvað gera menn þegar þeir eru í sólahrings-hlaupakeppni og verður mál að pissa?

Yfirumsjón með æfngabúðunum hafði Kristín H. Haraldsdóttir þjálfari hjá UMFG Grundarfirði og Unnur Jónsdóttir þjálfari hjá UMSB kom einnig að þjálfun. Sigríður Sjöfn Helgadóttir í Borgarbyggð sá um að matreiða ofan í hópinn sem gisti í grunnskólanum í Borgarnesi og Herdís Erna Matthíasdóttir frá Reykhólum var einnig til aðstoðar í búðunum. Þær þrjár voru í undirbúningsnefnd ásamt fulltrúum úr framkvæmdaráði SamVest.

Æfingabúðum lauk með stuttu og skemmtilegu móti á Skallagrímsvelli og voru þátttakendur hátt í þrjátíu. Bjarni Þór Traustason í Borgarbyggð hafði umsjón með mótinu ásamt aðstoðarfólki, m.a. úr hópi foreldra.

Svona æfingabúðir er ekki hægt að halda nema með góðri samvinnu, skipulagningu og foreldrum sem eru fúsir til að aðstoða. SamVest og undirbúningsnefnd þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn í þessu verkefni.


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page