SamVest og FH undirrita samstarfssamning
Fulltrúar SamVest og frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu samstarfssamning um aðstöðu og þjálfun.
„Með þessu samkomulagi semjum við um að halda samæfingar SamVest hjá frjálsíþróttadeild FH á þeirra æfingatíma og í þessari frábæru aðstöðu hér í Kaplakrika fyrir samæfingar SamVest. Við höfum komið með íþróttahópa í höfuðborgina kringum þrisvar sinnum á vetri,“ sagði Björg Ágústsdóttir frá Grundarfirði, formaður framkvæmdaráðs SamVest við undirritunina.
Frjálsíþróttadeild FH mun jafnframt sjá SamVest fyrir gestaþjálfurum á æfingum í Kaplakrika. Íþróttamenn SamVest mega koma á einstaka æfingar í Hafnarfirði ef þau eru á svæðinu. Ennfremur nær þetta samstarf til nemenda af SamVest-svæðinu sem eru við nám á höfuðborgarsvæðinu, en þau hafa aðgang að æfingum FH í Kaplakrika gegn sama gjaldi og FH-ingar.